föstudagur, 23. nóvember 2007

Um Næturvaktina og tímann


Næturvaktin er verk eftir Lars Noren frá árinu 1983 og er hluti af nordwind festival hér í Berlín

Ég hef verið að vinna að verkinu undanfarna mánuði og afraksturinn verður opinberlega frumsýndur nú á þriðjudaginn. (Hlutirnir virka öðruvísi hér í Berlín en heima þar sem forfrumsýning var á verkinu þann 2.11 og svo æfum við verkið upp að nýju til frumsýningar)

Það sem reyndist erfiðast við þessa uppsetningu, og kom mér verulega á óvart, var það að verkið er ótrúlega gamaldags - miðað við aldur.

Nokkur orð um verkið til þess að opna það þeim sem ekki þekkir:

Verkið gerist á einni nóttu í íbúð pars nokkurs, John og Charlotta (leikin af Solveigu Arnarsdottur og Stefan baumecker). Þau hafa verið saman í 9 ár en í ljós kemur strax í upphafi að sambandið er brotakennt og í þetta skipti hafi þeim tekist að vera hamingjusöm í 4 daga eftir að hafa tekið saman að nýju.

John er sálfræðingur en óljóst er hvað Charlotta gerir.

Til viðbótar skötuhjúunum koma í heimsókn bróðir Johns, Alan, og kona hans Monica. monica er húsmóðir en Alan er verkfræðingur sem hefur starfað að mestu í Póllandi við hótelbyggingar. Ekki líður á löngu þar til ljóst verður að þarna er líka allt á vonarvöl.

Samsetningin er sumsé þannig að við erum með tvö pör þar sem allt hangir á bláþræði og samskiptin eru rotin og skemmandi.

Til þess að skerpa situationin lætur Noren verkið gerast um nóttina eftir útför móður bræðranna.

En svo ég komi að tímavandamálinu sem ég snerti á í upphafi þá varð mér ljóst fljótlega að eins og verkið var skrifað var vart hægt að setja það upp í nútímaleikhúsinu. Verkið byggir á ferlega löngum díalógum fólks í millum sem byggir á sálfræðigreinandi samskiptatækni. Það er, hver setning er úthugsuð og hönnuð með sálfræðianalísu sem bakgrunn, og eru því persónurnar í raun stöðug að upplýsa hvaða innri hreyfinar eiga sér stað. Þau eru því í raun eins og gangandi sálfræðingar.

En ólíkt Woody Allen sem gerir þetta, en á gamansaman hátt, virkar þetta illa í dramatískum texta. Dramatískur texti verður að bera með sér, eins og liggur í orðanna hljóman, að hann sé dramatískur. En stöðug sjálfsanalísa er ekki dramatísk, hún getur upplýsandi, intellectually áhugaverð, en hún er ekki dramatísk.

Woody Allen er fyndin vegna þess að hvernig hann fer með eigin sálfræðitúlkun er í sjálfu sér komment á sálfræðitúlkun samtímans. En jafnvel hann hefur dregið úr þessu eins og nýjustu myndir hans bera með sér.

Og í kjölfarið fór ég að hugsa. Hvað hefur valdið því að þetta samskiptamynstur hefur nánast horfið úr opinberri umræðu (sérstaklega listunum). er það vegna þess að við erum búin að missa trúnna á sálfræði sem slíka, eða er það hitt að hinn vestræni heimur er almennt búin að missa trúnna á allsherjarlausnir; að við fall Berlínarmúrsins hafi hin hugmyndafræðilega mótstaða við kapítalismann horfið og þar með trúin á hugmyndafræðilega reddingar.

Og þar sem við trúum ekki lengur á allsherjar reddingar þar með trúum við ekki lengur að sálfræðin sé tæki sem getur bjargað okkur, frekar en nokkuð annað. (Hér undanskil ég náttúrulega einstaklingsbundna sálfræðimeðferð).

Það sem sálfræðilegur texti ber einnig með sér, og erfitt er að komast undan, er naturalískur leikur. Stílfærsla sem erfitt er að bera á borð í þýsku leikhúsi samtímans. Þessi leikaðferð lifir ennþá að vissu leyti góðu lífi í Skandínavíu en er (sem betur fer) þar einnig á undanhaldi...

Natúralískur leikur á rætur sínar að rekja til loka 19. aldar þar sem leikformið var bundið í upphöfnum leik. Það þótti stórtíðindum sæta þegar sviðið fór að þykjast vera raunveruleiki, og á köflum þótti þetta skref sjokkerandi. (Sem dæmi má nefna frægt atvik í þýskri sögu þar sem áhorfendur gengu í unnvörpum út af sýningu þegar vinnukona í stykki eftir Hauptmann dirfðist að skræla alvöru kartöflur á sviðinu).

Auðvitað var þetta aðferð til þess að gera leikhúsið relevant, til þess að tala um raunveruleikann, trú að fantasían væri ekki nógu sterk til þess að hafa áhrif á raunveruleikann.

Í kjölfarið kom bíómyndin fram á sjónarsviðið og fór að setja raunveruleikann á tjald. Og nú voru tveir uppspunnir miðlar báðir að fjalla um heiminn með sömu stílfærslunni. Nema hvað að annar þeirra, bíómyndin, var (þótt ótrúlegt megi virðast) betur til þess fallinn, enda gat hún set raunveruleikann á tjald EINS OG HANN ER, ekki með symbólískum hætti eins og leikhúsið.

Leikhúsið þráaðist við, enda var það blóðugur bardagi fyrir leikúsið að geta verið naturalískt, en loksins hlaut sá tímapunktur að koma að það myndi aftur snúa "heim", í veröld fantasíunnar.

Og þar með virkar sálfræðilegur texti ekki lengur á svið, enda byggir hann á því (allaveganna eins og Noran skrifar hann ) að hann sé natúralískt leikinn.

Ég sagði í upphafi að þetta hafi komið mér á óvart og því má náttúrulega spyrja hvernig hafi staðið á því að ég hafi í fyrsta stað valið mér verkið, og í annan stað, af hverju ég hafi ekki séð það fyrir.

Varðandi fyrsta punktinn þá vildi ég takast á við þennan texta þar sem ég hef að mestu unnið með eigin texta, eða texta mikið unna af mér og fannst því upplagt að vinna með þennan texta til þess akkúrat að þurfa að takast á við þessa gjá sem myndast hefur.

Hinsvegar þá taldi ég ekki að það væri svona erfitt að koma því í verk, að gefa texta sem skrifðum er í ákveðnu formi nýja ásýnd, nýja áferð. (Nema náttúrulega að svíkja textann alveg og troða bara algerlega nýju formi upp á textann)

Það sem ég áttaði mig á eftir að hafa legið í þessum vangaveltum öllum var að ég yrði að snúa upp á naturalismann til þess að geta notað hann. Yrði að taka grunninn í stykkinu, það er að í miðjum heimi biturðar og sálfræðilegra slagsmála stendur sálfræðingur, sem engu að síður getur ekkert bætt, engu breytt, og nota það sem komment frekar en ranverulegan grunn.

Að snúa grunnpunkti Lars Noren upp í íróníu á heim sálfræðilegra samskipta.

Og leiðin að því var að snúa þessum breysku samskiptum öllum saman upp í leiki. Leiki fólks í millum (einskonar heldri manna samskvæmisleikir) til þess að upplifa eitthvað - til að finnast það vera lifandi.

Og þannig get ég í raun notast við natúralíska stílfærslu til þess að kommenta á natúralísk samskipti.

En það sem eftir stendur er sú uppgötvun að það er í raun stærri stílfræðilegur munur á verki frá 1983 og nútímanum heldur en í verkum frá lokum 19. aldarinnar, þegar natúralisminn var nýr og ferskur - en kannski er það einmitt ástæðan.

Að lokum þetta komment frá finnska vini mínum Juha Jokela höfundi og leikstjóra: "I have seen a lot of Noren in Finland and always found him difficould. He shows you a world of misery and dispeare and after 5 minutes you have understood that. Then the next 4 hours will go into watching the horror taking place, but on an intellectual level, because it does not touch you any more. You become an observer of hell, not an emotional participant thereof. But maybe you have found the way here, because by turning it into physicological games, you have managed to turn it into a world of dramatical progressing. That is, there is developement taking pace and therefore you follow the story, you care about what happens to the people. Maybe that is the key to acting noren today."

Berlín - 23.11.07
Þorleifur