Góða kvöldið
Ég hef verið tilturulega duglegur undanfarna daga í leikhúsunum. Fyrst sá ég "Betrunken genug um zu sagen das ich dich liebe" (Nógu fullur til þess að segja að ég elski þig) í Schaubühne, þá "Antígónu" í Schwerin og loks "Songs of the dragon flying to heaven" í HAU eins.
Og koma hér athugasemdir mínar um verkin:
Nógu fullur...
Er maður kom inn í salinn þá blöstu við tveir menn sem gengu um hótelherbergi á nærbuxunum. Milli herbergisins og okkar var glerveggur. Leikið var í gegnum míkrófóna.
Verkið er uppgjör Churchill við ameríska utanríkjastefnu undanfarin 100 ár. Í raun er ekki um draatískan texta að ræða, þetta er frekar eins og tilfinningarsnauð upptalning á atburðum. Karlmennirnar tveir eru í raun Ameríka og Bretland sem eiga í samkynheigðu ástarsambandi (sem ég verð að segja að er að vissu leyti skondin hugmynd). Leikstjórinn Benedikt Andrews fór þá leið að snúa þessu upp í ástarsamband milli mannanna sem milli þess að þeir rifja upp atburði lemja hvorn annan (ameríka lemur meira á bretlandi en öfugt).
Þetta er kannski hin ágætasta leið til þess að fara með þetta verk því að þrátt fyrir göfugan tilgang er þetta verk óskaplega platt, banal og umfram allt leiðinlegt. Höfundurinn bíður ekki upp á neina dramatísa framvindu þar sem þessi upptalning hlýtur aðra vídd til þess að spegla sig og skoðanir sínar í, hún finnur enga listræna nálgun heldur gengur að því vísu að þetta komi okkur á óvart (já eða hitt að við erum orðin svo vön því að lesa um misbeitingu valds að það snerti ekkur hvort sem er ekki). En þetta kemur ekki nokkurri manneskju á óvart svo framarlega sem hún hefur opnað blað, svo ég tali nú ekki um að hafa kynnst frábærri uppfinningu - internetinu.
Það að snúa þess upp í ástarsamband fullt af valdi og misþyrmingum (óhugnarlega hægum og vægum þó) gefur þessu örlitla dýpt en aldei nóg til þess að leiðinn beri upplifunina ekki ofurliði. Og þó svo að ég skilji vel vandræði leikstjórans með þennan texta, þá væri líka hægt að segja að með því að gefa þessu nýja vídd þá ertu þar með að taka fókusinn af textanum sem þarf verulega á því að halda að á hann sé hlustað (til þess að maður geti greint samsetningu hins ómóralska texta og þar af leiðandi etv. notið hans á intellektinu einu saman). Með því að treysta textanum ekki þá líður bæði textinn og leikurinn fyrir og verður þegar uppi stendur eiginlega ekki neitt.
Svona ódramatísk verk verður næstum því að setja upp í einhverskonar innstallation þar sem framvinda hennar spilar með framvindu hins ódramatíska texta. Ég sé fyrir mér að setja þetta upp í fiskabúri þar sem 2 hershöfðingjar sitja og drekka koníak og rifja upp gamla tíma með bros á vör gæti virkað með þetta, kannski fyllist svo fiskabúrið hægt og hægt að vatni. Eða eitthvað í þá áttina...
Þetta var sumsé allt saman frekar leiðinlegt.
Tók þetta upp við leikhússtjóra hússins, sem varði sýninguna með orðunum "þetta þarf að heyrast". Þetta kannast við svona setningar frá sjálfum mér er ég var aðallega í því að setja upp sýningar sem áttu að berkskjalda valdhafa, en komst að því fyrir mig að slíkt gengur ekki upp ef verkið er ekki fyrst leikhúsverk og svo pólitík, ekki öfugt. En á hinn bóginn getur verið að þjóðverjar lesi ekki blöð og þekki ekki internetið - eða kannski er það bara þannig sem þetta leikhús lítur á áhorfendur sína.
----------
Antígóna:
E-werk leikhúsið er litla svið borgarleikhúss Schwerin. Húsnæðið er ferlega hrátt og drungalegt, svona eins og gömul verksmiðja. Þarna mun ég leikstýra verkinu "Gegen die Wand" eftir Fait Akhan á vordögum.
Í Antígónu þá var sviðið þakið fatalufsum sem mynduðu ferhyrning. Líklega átti þetta sótt í smiðju Peter Brook, hið afmarkaða spilrými skilgreint með táknrænum hætti. Ef þetta var takmarkið þá mistókst það allhrapalega, og voru það ekki fyrstu mistök kvöldsins í einni allra verstu leikstjórn sem ég hef augum borið.
Undir fatalyfsunum (sem auðgreinilega voru gamlir búningagarmar, enda margt að finna frá hinum smekklega áttunda áratug) lágu svo leikararnir sem áttu þau örlög ekki skilið að þurfa að leika í þessu rými.
Verkið hófst á því að undan fötunum skriðu persónurnar til þess að færa okkur hina hrikalegu sögu. Þegar hver persóna hafði lokið sér af þá lagðist hún að nýju og virtist sofa þar til að henni kom að nýju. Þarna voru mega mistök númer 2 að finna, því að þegar átakamikil tveggja manna sena átti sér stað þá voru að staðaldri 4 manneskjur sofandi á sviðinu (sem reyndar kallaðist mikið á við það sem áhorfendur langaði að gera líka). Nógu erfitt er sem leikari að þurfa að leika miklar uppgjörssenur vaðandi milli fatahrúga (í búningum sem litu út fyrir að leikararnir hefðu mátt velja sér blindandi úr fatakössunum), ef viðkomandi þarf ekki stöðugt að vera að passa sig að hann stígi ekki á sofandi meðleikara sína. Aukinheldur verður að taka það með í reikningin að leikarar á sviði byggja saman upp orku og ef 4 eru sofandi þá þurfa hinir sem vakandi eru ekki aðeins að finna nóga orku til þess að bera eigin senu heldur einnig að bæta upp fyrir lágorku þeirra sem á sviðinu sofa.
Grunnstaða leikenda var sú að standa, horfa hvor framan í annan og öskra, eða gráta eða henda fötum. Engin vinna hafði farið í það að búa til sterkar myndir, byggja upp dramatískar sitationir, vinna í strúktúr langra uppgjörssena eða vinna með neins konar mótstöður. Þetta var eins og þau væru að sýna okkur hvernig hefði gegnið eftir fyrstu æfingavikunni.
Ég hugsaði stöðugt með mér að líklega hefð þetta verið betra sem útvarpsleikrit því þá hefði ég ekki þurft að yfirvinna þá milku sjónrænu og táknrænu hindrun sem fatalafrarnir óhjákvæmilega voru.
Til að klára þetta varð mer hugsað til frægs leikdóms í Þýskalandi sem hófst á orðunum:
"Verkið hófst klukkan hálf átta, klukkan hálf ellefu þegar ég leit á klukkuna þá var klukkan rétt að slá í hálf níu".
Góðu fréttirnar er að það verður ekker sérstaklega erfitt að toppa þetta, maður þarf eiginlega bara að mæta og kveikja ekki á ljósunum.
------------
Dragons... (Eða - beðið eftir undirtexta):
Þetta er amerísk uppsetning eftir hina amerísk kóresku Young Jean Lee. Verkið fjallar um rasisma og bardaga menningarheima. Í leikskránni er það tekið fram að leikhöfundurinn og leikskáldið hafi doktorsgráðu í Shakespeare eftir að hafa kynnt sér hann náið í 6 ár.
Að sýningu lokinni voru því 2 spurningar sem brunnu á mér.
1. Er til einhver annar Shakespeare sem við í Evrópu þekkjum ekki til og hægt er að skrifa doktorsriterð um?
2. Ef svo er ekki þá er mér spurn hvernig er hægt að stúdera Shakespeare í 6 ár og læra ekki neitt um leikhús og leikhússkrif?
Ég hélt eftir Antígónu að ég myndi ekki í annan tíma sjá jafn vonda sýningu en í þetta skipti reyndist biðin ekki löng. Þessi sýning er án nokkurs vafa versta leiksýning sem ég hef á ævi minni séð.
Reyndar verð ég að taka það fram að ólíkt því sem maður sat í gegnum undir Antígónu, þar sem maður horfði á í leiðigjarnri óþolinmæði eftir því að Antígóna gæfi loksins upp öndina svo maður gæti farið heim, þá var mér oft nokkuð skemmt undir þessari sýningu. Oftar en ekki skellti ég uppúr (reyndar í jöfnum hluföllum við tilraunir leikendanna til dramatísks leiks) og kom fyrir að tárin rynnu niður vangana af einskærri gleði yfir meðvitundarleysi og æðruleysi leikendanna að standa og fara með þessa texta - og það án þess að vera kaldhæðin.
Eftirminnilegar setningar þetta kvöld voru meðal annars:
"I am from korea and I date white men because Im stupid - not - power to Asia!"
"Who dont you love me?" - "because you are an alcaholic" - "but Im not" - "I want to go to Africa to help people" (tribute höfundar til absúrd leikhússins)
Ég spurði leikstjórann í kjölfarið hvort hún hafi ekki alveg örugglega verið að grínast og hún kvað svo ekki vera, ég spurði hvort að leikendurnir hefðu ekki alveg örugglega verið amatörar og hún kvað svo ekki vera, ég spurði hvort þetta væri ekki alveg örugglega komment og hún kvað svo vera og mér létti.
Ég gat nefnilega ekki trúað að þessu hefði verið boðið til Þýskalandi án þess að þarna væri einhver ádeila á ferð því að ekki er hægt að bjóða svona sýningu á innihaldinu einu saman.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hún ætlaði kommentið í alvöru vera í textanum sjálfum og methodleikurinn og tárin og uppgerðu sjálfsmorðin og banalítetin í leiknum væru ekki írónía heldur það sem hún taldi góðan leik.
"hvernig innflytjendamenning verður undir í bardaganum við lágmenningu hvítra" var útgangspunkturinn og eftir að hafa horft á stóð ég mig að því að hugsa til Guiding Light með hrifningu.
Ég gekk út eftir þessa sýningu með staðfestingu á öllum mínum fordómum út í bandarískt leikhús. Vona að önnur sýning á öðrum tímum bjóði þessum fordómum birginn. Þessi sýning var nefnilega lítið annað en aðhlátursefni.
Nú hlakka ég til þess að koma heim og sjá leikhús þar.
Bestu kv.
Þorleifur Örn Arnarsson
Berlín
laugardagur, 8. desember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Það er aldeilis!!!
Skrifa ummæli