Um leikhúsið og markaðinn
Í hagfræði er áhugavert hugtak sem heitir "comperative advantage". Þetta myndi líklega útleggjast sem sambærilegt eða hlutfallslegt forskot (verður nefnt sf í þessari grein).
Hugtakið, eða kenningin sem að baki stendur, er grundvöllur hagfræðilegrar hugsunar um viðskipti. Kenningin gengur í grundvallaratriðum út á eftirfarandi:
Segjum að ég seti upp leiksýningu. Hana sækja 3000 áhorfendur. Ég ákveð í kjölfarið að mig langi að víka út áhugasvið mitt og gefi í kjölfarið út tónlistarverk sem selst í 300 eintökum. Þetta hefði ég talið alveg bara ágætt, sérstaklega útgáfa á tónverki mínu. Nú stigi Bubbi fram á sjónarsviðið. Hann myndi setja upp leiksýningu og hana myndi 13000 manns sækja en svo gæfi hann út lag og það myndi seljast í 30.000 eintökum.
Hér myndi kenningin um sf halda því fram að það væri ekki þjóðhagslega hagkvæmt að Bubbi setti bæði upp leiksýningu og gæfi út tónverk. Hann ætti að einbeita sér að því sem hann gerir hlutfallslega betur, það er að gefa út tónverk og láta mér, sem þó er ekki hálfdrættingur hans í leikhúsaðsókn, eftir að gera leikhús.
Þessi kenning gengur að mínu mati sérlega vel upp (sérstaklega þar sem ég hef Bubba undir í henni) þegar hin hlutlæga hlið samfélagsins er skoðuð.
Hagfræðikenningar telja nefnilega allt í hagkvæmni framleiðslunnar. Það er framleiðni sem skiptir mestu máli. Spurt er um hvernig einn hluti framleiðslunnar geti þjónað heildinni best sem leiðir svo af sér að geri einn betur en annar eigi viðkomandi að einbeita sér að því og láta þeim þá framleiðslu eftir sem þeir gera betur.
En fellur allt undir hagfræðikenningar? Felur smekkur undir hagfræðikenningar? Falla gæði undir hagfræðikenningar?
Hér myndu hagfræðingarnir halda því fram að neytandinn sé sá sem að lokum ákveður, ef hann vilji greiða meira fyrir gæði þá muni hann gera svo - og þal. muni gæðum ekki hraka. En er þetta svona einfalt?
Tökum skólakerfið sem dæmi. Hagkvæmast væri í slíku kerfi að öllum yrði kennt nákvæmlega eins. Það myndi einfalda útgáfu námsbóka, myndi einfalda kennaramenntun, myndi gera allt skipulag einfaldara og skilvirkara.
Vandamálið er þó það að í slíku kerfi er ekki pláss fyrir einstaklinga, ekkert pláss fyrir frávik í grunni nemendanna, ekkert rými fyrir mismunandi kennsluaðferðir sem henta myndi mismunandi nemendum. Og kannski það sem mestu skiptir, slíkt kerfi myndi skila minna til baka til samfélagsins þegar til lengri tíma er litið - efnahagslega séð vegna þess að út úr svona skólakerfi kæmu einhæfari nemendur.
En hvað með listir. Jú, vissulega er Bubbi vinsælli en ég, en hagfræðikenningin bjargar mér þar sem svo vel vill til að Bubbi er ennþá betri tónlistarmaður en leiklistarmaður. En í þessari kenningu er ekki tekið á því að kannski hef ég miklu meira að gefa til lengri tíma litið en Bubbi. Það er ekki tekið með í mælikvarðann.
Og þarna komum við að grundvallarvandamáli leiklistarinnar í dag (ég einbeiti mér að leiklist þar sem ég er sambærilega fróðastur um hana en býst þó við að hægt væri að yfirfæra þetta á flestar listir). Mælikvarðar hagfræðinnar eins og hún er uppbyggð í dag á illa við um listsköpun. Ástæða þessa er einkum að finna í eftirfarandi:
1. Að hagfræðikenningar byggja að mestu á hinu hlutlæga. Hið ómælanlega/óhlutlæga er, eðli málsins samkvæmt, ómælanlegt og fellur því ekki inn í kenningar sem snúast um að bera hluti saman til þess að komast að hagkvæmustu lausninni.
2. Að efnahagslegur ávinningur listanna er illmælanlegur þegar til skamms tíma er litið.
Varðand fyrsta punktinn þá má benda á að afleiður hins ómælanlega séu vissulega mælanlegar. Sem dæmi má nefna að hverfið Prenzlauer Berg í Berlín var í rjúkandi niðurnýslu 1989. Þetta nýttu sér ungir listamenn og skapandi starfskraftar eftir fall múrsins. Lítil gallerí og stúdíó opnuðu á öllum hornum, kaffihús og veitingastaðir til þess að hýsa bóhemana spruttu upp eins og gorkúlur og þetta gerði það að verkum að hægt og rólega varð sérlega eftrsóknarvert að búa í hverfinu. Það leiddi svo aftur af sér hækkun á fasteignarverði sem svo aftur var mælanleg hagfræðinni.
Hækkunin var mæld og mærð en það gleymdist að við hækkunina þá flúðu ungu listamenni í önnur hverfi. Ekki er hægt að hrekja að þessi uppbygging hafi orðið möguleg í gegnum framlag listamannanna og hinna skapandi starfskrafta en það eru ekki þeir sem njóta afrakstursins. Af þeirru einföldu ástæðu að þetta gerist hægt og bítandi og ekki er hægt að koma á beinum tengslum milli framlags þeirra og hagþróuninnnar. Óbein tengls hjálpa þessum einstaklingum ekki.
Þessi afleiðureikningur er vissulega brúklegur en engu að síður stendur það listum fyrir þrifum að þær hafa ekki fastan samastað innan hagfræðinnar. (Þetta væri ekki vandamál ef hagfræðiútreikningar væri ekki grundvöllur hinnar pólitísku umræðu). Þær skila sér ekki á ársfjórðungslegum útreikningum, þær sýna gildi sitt á löngum tíma. Sagan sýnir þetta svo ekki verði um villst.
Listirnar eru því aðeins mælanlegar í gegnum aðra faktora og þess vegna erfitt að sanna efnahagslegan ávöxt tilvistar þeirra í núinu. Og hvað þá síður er hægt að tengja efnahagslegan framgang við einstaka listamenn eða sérstaka afkima listarinnar.
Þetta veldur svo því að litið er á listir sem einhverskonar hobbý þeirra sem þær stunda - og endurspeglast þessi hugsunarháttur svo aftur í launum listamanna á Íslandi.
Við þessar aðstæður er tvennt sem hægt er að gera. Annars vegar þyrfti að koma fram hagfræðikenning sem tæki inn hið ómælanlega og mældi það. Þetta myndi vissulega fela í sér einskonar uppgjöf. Samþykkja þyrfti að hagfræðin væri það sem best væri til þess fallinn að mæla samfélög og mannanna verk. Þetta væri sumsé realista leiðin.
Áhugavert væri til dæmis að sjá útreikninga á þeim tekjum sem heimsfrægð Bjarkar hefur fært Íslandi. Hversu mikill aukningur túrisma er hægt að rekja til hennar, hversu stór hluti söluaukningar íslenskra vara erlendis mætti rekja til hennar, hversu stór hluti ímyndarbyggingar Íslands hefur farið í gegnum hana? Og að þessari rannsókn lokinni væri hægt að reikna út hvað það kostaði íslenska þjóð mikið að hjálpa henni að komast á þann stað sem hún er komin á. Með slíkum reikningum væri svo hægt að halda áfram og reikna út hversu mikið ætti að styrkja listirnar til þess að hjálpa til að búa til hina nýju Björk, Íslandi öllu til heilla. Þetta mætti líta á sem áhættufjármagn. Íslenska listaútrásin. En ef rannsóknin myndi einvörðungu skoða fyrstu 6 mánuðina í ferli Bjarkar þá væri útkoman önnur, og á þeim niðurstöðum væri ekki nokkuð sens í því að aðstoða listamenn.
Með því að setja listirnar í efnahagslegt samhengi þá væri hægt að ýta út af kortinu mýtunni um að þeir lifi eins og snýkjudýr á ríkinu og bæti engu í raun við.
EF menn eru ekki hrifnir af því að gangast undir reiknilistir hagfræðinnar þá gætu listamenn gripið til aðgerða og bent þar með á mikilvægi sitt. Helst þyrfti að leggja niður allt sem flokkast getur undir listsköpun og sjá hvernig það færi með samfélagið. Ef öllum væri sama ef gallerí, leikhús, óperan, tónleikahúsin, gjörningarnir, götuleikhúsin, útvarpsleikhúsið, bókasöfnin myndu leggjast af (og því fylgdi náttúrulega hægfara niðurnýsla hverfa og borga en það er önnur saga) þá þyrftu listamennirnir að kyngja því, fara í jakkafötin (sem þeir fengju lánuð vinum sínum) og sækja um í bönkum og auglýsingastofum.
Já eða hitt, listamenn gætu farið að rukka fyrir vinnu sína miðað við menntun (flestir hafa 1 til 2 háskólapróf á bakinu og ættu því að vera í klassa með góðum lögfræðingi). Þetta myndi líklega hafa sömu áhrif og ofangreind aðgerð.
Þar sem teljast verður ósennilegt að listamenn grípu til slíkra aðgerða þá stendur í raun eftir, vilji listirnar bæta hlutskipti sitt, að listirnar verði að sanna samfélagslegt og efnahagslegt gildi sitt. Þær þurfa því í raun að takast hið ógerlega, að gera hið ósýnilega sýnilegt - Sem er sem betur fer þerra sérsvið.
Bestu kv.
þorleifur
PS: Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta vekur auðvitað upp spurningar um mun markaðsleikhúss og menningarleikhúss en það verður einmitt efni næsta pistils sem kemur hér inn.
þriðjudagur, 18. desember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli