þriðjudagur, 8. janúar 2008

Um væntingar og vonbrigði

Á laugardaginn var frumsýnt nýtt verk hinnar mögnuðu grúbbu Rimini Protokoll í HAU II leikhúsinu í Berlín.

Rimini Protokoll vinnur í því að blanda saman leiklist og raunveruleika á skemmtilegan og oft frumslegan hátt.

Einshver magnaðasta leikhúsupplifun sem ég hef orðið fyrir var þegar ég fór á sýningu Rimini á Call Kutta. Maður mætti þá í leikhúsið og fékk GSM síma. Maður hringdi svo í númer í Indlandi þar sem maður var settur í samband við konu sem vann hjá Call center í Kalkutta. Kona þessi leiddi mann svo í gegn um undraveröld Berlínar í gegnum símann. Ég sá bakhýsi sem ég vissi ekki að væri til, hina duldu ósýnilegu sögu sem hver borg felur þeim sem hana ekki þekkir en opnaðist þarna fyrir manni og það af konu sem sat meira en 3000 kílómetra í burtu.

Eftir þetta hefur mér alltaf þótt doldið vænt um Rimini Protokoll. Og því fylgir - samblanda væntinga og krafna.

Sýningin sem þau frumsýndu nú á laugardaginn heitir Breaking News og er þeirra teik á fjölmiðlaheiminn.

Eins og oftast áður þá eru Rimini að leyfa okkur að skyggnast inn í hugarheima með tækjum leikhússins. Þau hafa fengið fólk sem starfar á einhvern hátt við dauðann til þess að setja dauðasýningu á svið, þau hafa fengið lestaráhugamenn til þess að sýna okkur undraheima lestarmódela og í þetta skipti fáum við að kynnast sérfræðingum úr fjölmiðlunum.

Á sviðinu eru sjónvörp í löngum röðum sem kasta fréttamyndum héðan og þaðan að úr heiminum. Við hvernig menningarheim stendur svo túlkur sem þýðir hvað er í fréttum á hverjum stað. Á sviðinu voru túlkar fyrir Arabasvæðið, Rússland, S Ameríku, N Ameríku, Indland og Pakistan og loks fréttaritari frá Afríku, þýskur fréttaskýrandi og fréttastjóri sem sá um að klippa á milli frétta.

Grunnhugmyndin er góð. Að veita manni innsýn í heim frétta og hvernig mismunandi menningarheimar sjá fréttirnar. Eins og oft áður hjá þessum hóp þá byggir sýningin á því hvernig þessir expertar standa sig.

Íslandingar geta verið stoltir af sínum manni, Símoni Birgissyni, sem stendur fremstur meðal jafningja hvað varðar presence á sviðinu. Hann hefur líka kannski skemmtilegustu frásagnirnar að segja. Sögur hans verða að vissu leyti hjákátlegar við hliðina á kjarnorkusögum hins stóra heims en á hinn bóginn er eitthvað fallegt við það að stundum komist litlar sögur líka í fréttir.

En það hafði farið á mis hjá því Riminifólki í þetta skipti að finna kraftmikið og spennandi fólk til þess að segja sínar sögur. Margar hliðarsögurnar voru langdregnar og svo var sýningin öll einhvernveginn ómarkviss. Stjórnandi "fréttatímans" var alveg sérdeilis óáhugaverður maður sem mætti með silfurklút um hálsinn á frumsýninguna og það var á köflum sem að orka hans og fókusleysi smitaði útfrá sér, aþnnig að rythmi og kraftur sýningarinnar fór heldur á skjön. Þegar líða tók á þá fór manni að leiðast. Það var lítið sem bætt var við, heldur var ómarkvisst stokkið á milli frétta héðan og þaðan án þess þó að maður upplifði að það bætti miklu við það sem verið var að segja manni.

En kannski er það misskilningur að ganga inn á svona sýningu og heimta það formsins vegna að það sé einhver sögn. Kannski er stærsta take sem hægt er að taka á fjölmiðlana að þykjast ekki hafa neina skoðun, heldur bara að presentera þá eins og þeir eru, án útskýringa, án túlkunar, það er, nema hinnar duldu túlkunar fjölmiðlamannsins sem þykist vera hlutlaus.

Eftir stendur að fjölmiðlarnir eru komnir í hring. Þeir eru í raun leikrit í sjálfu sér, sem er undirstrikað með því að lesa inn á milli upp út Æskilos sem upplifði stríð með eigin augum og skrifaði seinna um það í verkum sínum um Persastríðinn. Eins og hann var stríðsfréttaritari sem dramatíseraði textana sína eru fjölmiðlar nútímans instant drama serverað með vænum skammti af yfirborðskennd og tilfinningaklámi. Þetta kemur allt skýrt fram í verkinu og er áhugavert fyrir intellektið.

En auðvitað má setja spurningamerki við þá aðferð að láta sína sýn á hlutina endurspeglast í því að hermt er eftir þeim. Vissulega stendur viss framandgering í því að setja það upp á sviði, og þar með í öðru umhverfi, en á köflum vildi ég fá meira. Mér fannst grunnurinn nógu spennandi til þess að hægt hefði verði að kafa dýpra og segja meira.

Þannig að í raun voru vonbrigði mín þetta kvöld ekki byggð á því að það sem ég sæji væri ekki nógu gott, heldur frekar hitt, að ég gerði of háar væntingar til þessara listamanna og þess sem þau hafa að segja.


Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

Engin ummæli: