mánudagur, 1. júní 2009

Rómeo og júlía - Uppsetningardagbók

Dagur 17

Las textann í gær til þess að undirbúa æfingu. Verkið er of langt.

Ég bara skil ekki hvað Shakespeare er að gera með sumt þarna.

Til hvers er til dæmis allur 5 þátturinn þar sem Júlía er hvort sem er komin í dá og samkvæmt prólógnum vitum við að þau deyja. Hvernig stendur á því að Shakespeare skrifar inn fleiri fleiri blaðsíður af einhversskonar plotti sem í raun stoppar aktíónið?

Eftir dauða Mercutíó breytist leikritið úr léttu ástarverki yfir í harmleik. Og það er tilturulega vel gert. Og svo renna bara öll vötn til Arnarfjarðar, nema 5 þátturinn,hann rennur upp í móti.

Þannig ég bara skar hann.

Ef ég þarf að vinna eftir þessum texta eins og hann er þá ætla ég hið minnsta að segja þessa sögu þannig fútt sé í.

Ég var svo upprifinn eftir niðurskurðinn að ég leitaði upp stúlkuna síðan í gærkveldi. Fann hana - og kærastann hennar.

Horfði á sleepless in Seattle á hótelherberginu.

Ást er annaðhvort blekking, fólska, uppspuni, glópasýn eða misskilningur, nema þá væri að hún sé allt ofangreint.

Það er erfitt að setja upp verk fullu af tilfinningu sem farin er yfir síðasta söludag.

sunnudagur, 31. maí 2009

Dagur 15 og 16

Ég var ekki með æfingar í dag og í gær.

Leyfa hlutunum að sjatna áður en ég held áfram með uppsetninguna.

Það virðist sem ég hafi skrifað email og sent út þegar ég kem heim á hótelherbergið.

Þar fór ég ef til vill full bókstaflega í gegnum þau vandamál sem ég sá í sambandi við uppsetninguna.

Og varð kannski full bókstaflegur þegar ég lýsti fyrir þeim hvað ég sá fyrir mér þegar kom að kynlífinu í verkinu.

En það er búið að leysa málið.

Við vinnum eftir textanum.

Enda er ekki hægt að troða frumleika ofan í fólk, það verður að finna hann innra með sér.

Rómeo og júlía - Uppsetningardagbók

Dagur 14

Það er ekki tekið vel í hugmyndina mína hér að ofan í leikhúsinu.

Þau eru svo smá í hugsun. Svo lokuð.

Ég hafði kallað alla leikarana saman til þess að segja þeim frá breytingunum, safnað saman myndbrotum til þess að nota sem referance (apocolypse now, Platoon, one flew over the coocoos nest, Titanic) en þau bara lokuðu eyrunum fyrir þessu og vildu halda sínu striki.

Ég hef aldrei lent í öðru eins.

mér finnst ég ekki vera metinn af verðelikum.

Fór á barinn.

Einn.

Stúlkan úr partínu sat við borð út í horni.

Ég veit að ég fór til hennar...Ég veit að ég talað við hana...mig minnir að ég hafi verið fyndinn..framan af...mig minnir að ég hafi reynt að segja henni frá hugmyndunum mínum...ég held að ég hafi sofnað einhversstaðar á leiðinni...ég vaknaði á hótelinu...

Hún var með falleg augu

Rómeo og júlía - Uppsetningardagbók

Dagur 13

Ég er þunglyndur.

Rómeó og júlía er yfirborðskenndur farsaleikur með banal ástarsenum. Það er ekki nokkur leið að gera þetta trúverðugt.

Ég er komin á fremsta hluninn með að skila aftur búningunum sem ég lét panta frá Veróna og vinna með verkið modern. Finna eitthvað trúverðugra að segja.

Leikhús er svo uppgerðarlegt, það er ekki ekta. Sérstaklega ekki svona gömul leikrit. Sérstaklega ekki á sviði. Ég er bara að vona að ég fái einhvertímann break í kvikmyndabransanum, myndir eru að minnsta kosti ekta!

Kannski á ég bara að sleppa fóstrunni og ástarsenunum, setja inn smá fútt í bardagaatriðin, vinna með rasisma og fordóma, með brotna samfélagsmyndir.

Gera verk um 2 fjölskyldur af sitt hvorum ættbálknum en af sama landinu. Og af einhverjum ástæðum þá hefur hatur ríkt í gegnum aldirnar, en enginn veit af hverju. Og svo hefur nýlega brotist út stríð sem getur bara endað í hörmungum.

En í svona stríði er auðvtað ekkert hægt að vera að leika einhverjar svalasenur, það auðvitað bara gengur ekki, en kannski er hægt að vinna með það innan þessa konsepts.

Þau búa sitt hvoru megin við brúna og geta ekki hist. En brúin er vöktuð af leyniskyttunni Tybalt.

Romeó og júlía senda ljósmerki sín á milli, leynileg skilaboð og ákveða að lokum að deyja til þess að koma á friði og frelsi í landinu. Þau hafa samband við CNN og fyrir framan myndavélarnar hlaupa þau af stað yfir brúnna. Þau eru auðvitað umsvifalaust skotin í tætlur. En þau ná saman áður en þeim blæðir út og þau deyja kvalarfullum dauða í faðmlögum á skjánum.

Þá myndi prinsinn í lokin verið með bláan hjálm, sameinuðu þjóðirnar koma til þess að bjarga málunum eftir að fréttin fór í loftið.

Svona gæti mér tekist að gera þetta verk pólitískt, spennandi, lifandi og ég slepp við slepjulega ástarsögu.

Humm...

Ég heiti Þorleifur og ég er snillingur!

Rómeo og júlía - Uppsetningardagbók

Dagur 12

Eins og áður kom fram...

Ég er með uppstökka austur evrópska Júlíu og Gyðing sem Rómeó!

Sumir myndu auðvitað reyna að halda því fram að þetta biði upp á nýja og ferska nálgun, en þá langar mig að benda viðkomandi á það að þetta er bara Rómeó og júlía, það er ekki eins og ég sé með meistarastykki í höndunum.

Ekki misskilja mig, Shakespeare er fínn til síns brúks, en ástarsögur voru kannski ekki hans sterkasta hlið.

Ef þetta væri til dæmis Ibsen, td. Brúðuheimilið, þá hefði ég nóg af hlustum sem ég gæti sett inn sem mögulega túlkun. Nóra, austur evrópskur innflytjandi, býr með manninum sínum, gyðingi, sem skilur ekki orð af því sem hún segir (enda fengin úr bæklingi). Þannig hann virðir hana bara að vettugi. Þetta fyrirkomulag hentar öllum ágætlega þangað til hún fer að skipa sér af fjármálum fjölskyldunnar með ófyrirséðum afleiðingum!

Eða ef við viljum vera smámunasöm og halda okkur við Shakespeare hvernig væri þá að hugsa sér Gyðing sem Othello og A Evrópumærina sem Destimonu? Othello slapp frá Þýskalandi Nasismans og faldi sig í litlu þorpi í Ungverjalandi þar sem fjölskylda nokur skýtur yfir hann skjólhúsi.

Í þakkarskini tekur hann upp skyldur fyrir fjölskylduna enda rennir hann hýru auga til dótturinnar á bænum. En Nasistarnir eru á eftir honum og hafa komið fyrir njósnara innan fjölskyldunnar sem á að sanna að hann sé Gyðingur. Í kjölfarið hefst æsispenandi eltingaleikur þar sem hatur, græðgi og fíflskapur ástarinnar ræður ríkjum.

(copyright - Arnarsson enterprieses)

Allt spennandi hugmyndir, en ég er fastur með Rómeó og júlíu!

laugardagur, 30. maí 2009

Rómeo og júlía - Uppsetningardagbók

Dagur 11

Rómeóinn sem mér var úthlutað í þessu leikhúsi hérna er ekki eftirfarandi:

Hávaxinn
Heillandi
Skemmtilegur
Ljóshærður
Stóreygður

En hann er hinsvegar:

Smávaxinn
Þybbinn
Íhugull
múshærður og síðast en ekki síst...

Hann er af gyðingaættum

Ég get ekki skrifað meira í bili!

sunnudagur, 24. maí 2009

Rómeo og júlía - Uppsetningardagbók

Dagur 10

Ég ákvað að taka pressuna af leikurunum í dag. Fannst þurfa að létta andrúmsloftið. Ég minnti þau því á það að Rómeó og júlía væri það verk sem oftast hefur veirð sett upp. Sem svo aftur þýðir að það þarf ekkert að vera að rembast þetta, það er engin möguleiki að gera neitt nýtt eða upprunalegt.

Ég á við, það er búið að gera allt sem hægt er við þetta verk og því skiptir ekki máli hvað þau gera, það er búið að gera það áður – og líklega betur.

Allir helstu leikarar heims hafa leikið í verkinu. Frá Lawrence Olivier til Dicaprio. Þannig að það er ekki hægt að klúðra þessu.

Þetta rann vel ofan í mannskapinn.

Þau eiga svo eftir að komast að því að þetta er hrikalega erfitt verk að leika í, en það kemur með tímanum. Engin ástæða til þess að vera að núa þeim því um nasir fyrirfram.

“komdu þeim til þess að trúa á það að þau þurfi ekki að trúa – þá kemur trúin af sjálfu sér” TS Eliot

Ég er annars í ferlega góðu stuði. Enda sól fyrir utan hótelkompuna mina.

Áttaði mig á því að það er ekki hægt að opna gluggan á hótelherberginu nema smá rifu.

Það er gert til þess að businessmennirnir stökkvi ekki út um gluggana.