sunnudagur, 17. maí 2009

Rómeo og júlía - Uppsetningardagbók

Dagur 7

Sunnudagur. Frídagur. Hér í Sviss er þetta dagur hins veraldlega uppgjörs dulbúið sem kelvínískur helgileikur.

Finn að hér eru allir dauðhræddir við kreppuna miklu.

Ótti á götum og torgum. Enda mikið af óraunverulegum veraldlegum gæðum sem gætu tapast.

Tók mér Shakespeare frí í dag en bölvaður þrjóturinn neitar að sleppa mér. Hann er í raun eins og sníkjudýr af asbergerstofninum. Leggst á mann eins og mara og neitar að sleppa. Og gerir mann einrænan og íhugandi.

Spurningar eins og “hvað er maðurinn” koma upp þegar mig langar bara að horfa á fótbolta.

Gæti verið að í textum sínum endurspegli Shakespeare manninum, í sinni flóknustu og margbrotnustu mynd…

Eða kannski eru þeir bara rugl.

Ég trúi ekki á ástina. Sérstaklega ekki á leiksviðinu. Ástin er blekking, gríman sem fólk skellir upp fyrir framan skelfinguna sem fylgir því að vera einn.

Ég bý á hóteli.

Í eins manns herbergi.

Engin ummæli: